Ný skýrsla Hugverkastofunnar um einkaleyfisumsóknir íslenskra lífvísindafyrirtækja var kynnt á málefnafundi Heilsutækniklasans í morgun.
Niðurstöður skýrslunnar sýna að íslensk lífvísindafyrirtæki standa sig vel við vernd uppfinninga með einkaleyfisumsóknum á alþjóðavettvangi. Fjöldi erlendra umsókna íslenskra fyrirtækja hefur haldist nokkuð stöðugur undanfarin ár en þó eru vísbendingar um að þeim fari frekar fækkandi en hitt. 63% allra einkaleyfisumsókna íslenskra lífvísindafyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarin 11 ár eru frá Össuri. Ef horft er til fjölda einkaleyfisumsókna innan lyfjageirans, líftækni og matvælafræði, eru þó frekar fáar umsóknir frá Íslandi miðað við samanburðarlöndin. Niðurstöðurnar gefa því vísbendingar um að íslensk lífvísindafyrirtæki þurfi að huga betur að einkaleyfavernd og að tækifæri sé til sóknar á sviði lífvísinda almennt hér á landi. Þó ber að setja þann fyrirvara að hér á landi starfa öflug lífvísindafyrirtæki sem eðlis starfsemi sinnar vegna sækja ekki mikið um einkaleyfi. Einnig má velta upp spurningum um hvata háskólasamfélagsins til einkaleyfisumsókna og stuðning hins opinbera og ýmissa styrktarsjóða við nýsköpunarfyrirtæki sem standa á þeim tímamótum að sækja um einkaleyfi.
Borghildur Erlingsdóttir, forstjóri Hugverkastofunnar segir að það sé eftirsóknarvert fyrir Ísland að efla lífvísindageirann enda sé um hátækniiðnað að ræða sem skapi mikil verðmæti og greiði góð laun. „Í Danmörku hefur lengi verið unnið markvisst að uppbyggingu á þessu sviði, meðal annars með opinberri stefnumörkun sem hefur borið góðan ávöxt. Útflutningur danskra fyrirtækja á þessu sviði þrefaldaðist t.d. á tíu árum, frá 2010-2019. Þar er nú unnið eftir nýrri lífvísindastefnu og skýrri hugverkastefnu. Hér á landi eru góðar aðstæður til að feta í fótspor Dana og gera lífvísindi að meginstoð í íslensku efnahagslífi. Til þess þarf meðal annars að huga vel að vernd hugverkaréttinda og mögulega þarf til þess aukinn opinberan stuðning við einkaleyfisumsóknir lítilla og meðalstórra fyrirtækja.“
Commentaires