top of page

Skýrsla um heilsu- og líftækni á Íslandi

Nýsköpun og þróun fyrir heilbrigðisþjónustu er yfirheiti nýrrar skýrslu um heilsu- og líftækni á Íslandi sem gefin var út af Heilsutækniklasanum fyrr í dag.


Heilsu- og líftækni nær utan um alla nýsköpun og þróun sem miðar að því að koma í veg

fyrir sjúkdóma, greina þá fyrr og veita betri meðhöndlun. Á síðustu árum hefur heilsu- og líftækni á Íslandi fleygt fram og það mun hjálpa samfélaginu að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í heilbrigðismálum. Með þessari skýrslu vill Heilsutækniklasinn leggja sitt af mörkum til að skapa grundvöll fyrir betra samtali og aukinnar samvinnu um þessi mál.


Í skýrslunni er að finna kortlagningu á þeim fyrirtækjum sem starfa við heilsu- og líftækni á Íslandi og samspili þeirra við heilbrigðisþjónustuna. Við kortlagninguna var unnið út frá þeirri skilgreiningu að heilsu- og líftækni nái utan um alla nýsköpun og þróun sem miðar að því að koma í veg fyrir sjúkdóma, greina þá fyrr og veita betri meðhöndlun.

Kortlagningin leiðir í ljós að 67 fyrirtæki eru starfandi í þessum geira, 31 í heilsutækni og 36 í líftækni, en ljóst er að þessi listi er ekki tæmandi.


Þó það feli í sér ákveðna einföldun á flóknum þekkingariðnaði þá má skilgreina muninn á heilsutækni og líftækni þannig að heilsutækni nýti stafræna tækni í þróun lausna meðan líftækni hagnýtir líffræði- og lífefnafræðilega þekkingu. Saman mynda greinarnar tvær tæknilausnir og aðferðir til að gera heilbrigðisþjónustu aðgengilegri, skilvirkari og betri.




Comments


bottom of page